Innlent

Kjartan Gunnarsson gagnrýndi Þorgerði harðlega

Andri Ólafsson. skrifar

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins mátti sitja undir gagnrýni á miðstjórnarfundi í dag fyrir að skila auðu í atkvæðagreiðslunni um Evrópusambandið.

Sá sem gekk hvað harðast fram á fundinum var Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins.

Miðstjórnarfundurinn í Valhöll var ekki boðaður sérstaklega vegna Evrópumálsins en það var eðlilega rætt á fundinum.

Eftir tveggja tíma hefðbundin fundarstörf var orðið gefið laust og þá hófust umræður um mál málanna. Auða atkvæðið sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skilaði í atkvæðagreiðslunni um Evrópusambandið í gær.

Samkvæmt heimildum fréttastofa tóku sex miðstjórnarmenn til máls áður en Þorgerður Katrín gaf skýringar á afstöðu sinni. Nokkrir lýstu stuðningi við afstöðu hennar, aðrir lýstu sig ósammála henni en sögðu að flokksagi ætti ekki við í málum sem þessum.

En það var í máli Kjartans Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins sem harðasta gagnrýnin kom fram.

Hann er fulltrúi þeirra sem telja óheppilegt að forystan sé ekki einhuga í jafnstóru máli. Þá er hann einnig á öndverðum meiði við Þorgerði í Evrópumálinu.

Formaðurinn sjálfur skilur gagnrýni Kjartans en segir að varaformaðurinn hafa gefið fullnægjandi skýringar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×