Innlent

„Ríkisstjórnin er stórhættuleg“

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Mynd/GVA

Formaður Framsóknarflokksins segir Icesave samkomulagið tryggja veikt gengi krónunnar í tvo áratugi og nauðsynlegt sé að koma ríkisstjórninni frá. Utanríkisráðherra sakar formanninn um dómsdagsspár og tala kjarkinn úr þjóðinni.

Icesave samkomulagið var til umræðu í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins spurði forsætisráðherra hvort hún hefði gengið úr skugga um það áður en samningamenn settu stafi sína á samkomulagið, að nægjanlegur þingmeirihluti væri fyrir málinu og þá sérstaklega í þingflokki Vinstri grænna. En þar hafa fjórir þingmenn lýst efasemdum sínum um málið og þrír greiddu atkvæði gegn undirritun samkomulagins í þingflokknum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra minnti á að um stjórnarfrumvarp væri að ræða. Hún sagðist verða að treysta því að þingmeirihluti væri fyrir málinu þegar það kæmi til atkvæðagreiðslu í þinginu.

Illugi sagði þetta ekki fullnægjandi svar frá forsætisráðherra, þar sem hún hefði ekki svarað því hvort gengið hafi verið fyrirfram frá afstöðu þingmanna stjórnarflokkanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði öll rök stjórnarflokkanna með samkomulaginu væru að falla. Ein rökin hefðu verið að samkomulagið myndi styrkja gengi krónunnar. Frá því samkomulagið var gert hafi krónan aldrei verið veikari og í morgun hafi verið upplýst á fundi utanríkisnefndar að skuldbinding Íslendinga væri hærri í erlendri mynt en áður var talið og nálgaðist 700 milljarða króna.

Sigmundur Davíð sagði allt útlit fyrir að gengi krónunnar yrði veikt um tveggja áratuga skeið, þ.e.a.s. í þann tíma sem áætlað er að skuldbindingar vegna Icesave standi yfir.

„Svo þessir samningar gera ekki annað en að valda hér efnahagslegri óárán næstu árin, koma í veg fyrir að við náum okkur upp úr kreppunni og valda síðan algeru hruni íslensks efnahagslífs ef fram heldur sem horfir og það hafa ekki verið færð nein rök fyrir því að sú verði ekki raunin," sagði Sigmundur Davíð.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að eignir Landsbankans myndu standa undir 75 - 95 prósentum skuldanna og jafnvel meira.

„Þannig að ég hef fulla trú á því að þegar upp er staðið muni dómadagsspár háttvirts þingmanns ekki rætast. Hann notar hér hvert tækifærið til að útausa þeim skoðunum að hér sé allt að fara til fjandans," sagði Össur. Hann væri algerlega óssammála Sigmundi Davíð og það yrði bæði honum og Framsóknarflokknum farsælla ef hann sæi einhvern tíma ljós, í stað þess að sjá aldrei neitt jákvætt í stöðunni.

Þessi svarði Sigmundur Davíð með því að segja að erindi hans væri ekki að draga þróttinn úr þjóðinni. „Erindið er að koma þessari ríkisstjórn frá. Þessi ríkisstjórn er stórhættuleg framtíð þessarar þjóðar," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins á Alþingi í morgun.


Tengdar fréttir

Treystir á stjórnarþingmenn

Icesave samkomulagið var til umræðu í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, hvort hún hefði gengið úr skugga um það áður en samningamenn settu stafi sína á samkomulagið, að nægjanlegur þingmeirihluti væri fyrir málinu og þá sérstaklega í þingflokki Vinstri grænna. En þar hafa fjórir þingmenn lýst efasemdum sínum um málið og þrír greiddu atkvæði gegn samkomulaginu í þingflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×