Erlent

Þúsundir Írana mótmæltu við gröf Nedu í Teheran

Mahmoud Ahmadinejad forseti situr með krosslagða fætur en æðsti leiðtoginn Ali Khameini á stól. Yfir gnæfir mynd af byltingarleiðtoganum Khomeini, forvera Khameinis. Mynd/AP
Mahmoud Ahmadinejad forseti situr með krosslagða fætur en æðsti leiðtoginn Ali Khameini á stól. Yfir gnæfir mynd af byltingarleiðtoganum Khomeini, forvera Khameinis. Mynd/AP

Lögreglan í Íran beitti táragasi og bareflum á þúsundir mótmælenda sem í gær efndu til minningarathafnar við gröf ungu konunnar Nedu Agha-Soltan, sem féll fyrir byssukúlu á mótmælafundi í síðasta mánuði.

Meðal annars kom lögreglan í veg fyrir að Mir Hossein Moussavi, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, gæti slegist í hópinn.

Mótmælendurnir höfðu komið upp í Behesht-e Zahra-grafreitnum minnisvarða um fórnarlömb átakanna síðustu vikur. Þeir krefjast afsagnar Mahmouds Ahmadinejad forseta.

Mótmælendurnir eru sannfærðir um að úrslit forsetakosninga 12. júní hafi verið fölsuð, og sigurvegari hafi ekki verið Ahmadinejad heldur Moussavi.

Neda Agha Soltan var 27 ára þegar hún féll fyrir byssukúlu á mótmælafundi í Teheran í síðasta mánuði. Hún var ekki þátttakandi í mótmælunum heldur átti aðeins leið hjá. Mótmælendurnir eru sannfærðir um að stjórnvöld beri ábyrgð á dauða hennar.

„Neda lifir, Ahmadinejad er dauður,“ hrópuðu sumir í mannfjöldanum í gær við gröf Nedu.

Ásakanir um að mótmælendur hafi verið pyntaðir í vörslu lögreglu hafa vakið reiði almennings og þykja vandræðalegar fyrir klerkastjórnina, sem hefur fyrir vikið fengið á sig óvenju harða gagnrýni úr eigin röðum og frá íhaldsmönnum sem til þessa hafa stutt stjórnina.

Mótmælendur komu einnig saman í gær við Mosalla-moskuna í miðborg Teheran, en fjölmargir lögreglumenn voru þar í viðbragðsstöðu og einnig á helstu gatnamótum í nágrenninu.

Þegar Moussavi kom að gröf Nedu hrópuðu stuðningsmenn nafn hans og líktu honum við einn helsta dýrling í sögu sjía-múslima, nafna hans sem var tengdasonur Múhameðs spámanns.

Lögreglan vísaði honum frá grafreitnum, þar sem margir þeirra sem fallið hafa í átökunum undanfarið eru grafnir. Lögreglan handtók einnig tvo þekkta íranska kvikmyndagerðarmenn, Jafar Panahi og Mahnaz Mohammadi, sem reyndu að leggja blóm á gröf Nedu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×