Innlent

Stórkaupmenn borgi milljón

Vildu hækka verð. Þáverandi framkvæmdastjóri FÍS sagði í útvarpsviðtali að skynsamlegt gæti verið að hækka matvöruverð um 30 prósent. Fréttablaðið / heiða
Vildu hækka verð. Þáverandi framkvæmdastjóri FÍS sagði í útvarpsviðtali að skynsamlegt gæti verið að hækka matvöruverð um 30 prósent. Fréttablaðið / heiða

Samkeppniseftirlitið (SE) hefur lagt einnar milljónar króna stjórnvaldssekt á Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) fyrir að hvetja til verðsamráðs. FÍS gekkst við brotinu og gerði sátt í málinu.

Málið hófst þegar framkvæmda­stjóri FÍS sagði í fréttum útvarps í mars í fyrra að hækka þyrfti matvöruverð og að sú hækkun gæti numið þrjátíu prósentum. Í kjölfarið tók SE málið til athugunar og kallaði eftir gögnum frá félaginu og aðildarfélögum þess.

Þar kom meðal annars fram að FÍS hefði átt samskipti við Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) um að félögin „myndu forðast opinberar deilur um verðlagsmál og tryggja að þessi samtök fyrirtækja myndu tala einni röddu um ástæður umræddra verðhækkana". FÍS segir þó að ásetningurinn hafi verið að hindra samkeppni. Samkvæmt Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra SE, er enn til athugunar hvort gripið verði til aðgerða gegn SVÞ vegna þessa.

FÍS játaði brotið í desember og óskaði eftir að sátt yrði gerð í málinu. Við mat á sektum horfði SE til þessa, sem og þeirrar staðreyndar að félagið setti reglur um starfsemi sína og samskipti félagsmanna sín á milli.

„Við gerðum sátt í málinu og erum því sáttir," segir Skúli J. Björnsson, formaður FÍS. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×