Innlent

Aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi í vinnslu

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað starfshóp um vinnumarkaðsaðgerðir með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna, fjármálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Hlutverk starfshópsins er að móta tillögur um aðgerðir til að sporna gegn atvinnuleysi.

Hópnum er ætlað að skila félags- og tryggingamálaráðherra fyrstu tillögum sínum um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir 1. febrúar. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að verkefni hópsins snúist að mörgu leyti um að „fylgja eftir vinnumarkaðsúrræðum sem fram koma í reglugerðum sem félags- og tryggingamálaráðherra setti fyrir helgi og stuðla að notkun þeirra í því skyni að sporna gegn atvinnuleysi, stuðla að virkni fólks án atvinnu og auka möguleika þess til að komast út á vinnumarkaðinn á nýjan leik."

Formaður starfshópsins er Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra. Aðrir fulltrúar starfshópsins sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningum eru: Halldór Grönvold fyrir Alþýðusamband Íslands, Cecilie Björgvinsdóttir fyrir Bandalag háskólamanna, Elín Björg Jónsdóttir fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Viðar Helgason fyrir fjármálaráðuneytið, Regína Ásvaldsdóttir fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og Guðlaugur Stefánsson fyrir Samtök atvinnulífsins.

Nánar má kynna sér málið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×