Innlent

Rimlahliði og fartölvu stolið

Aðfaranótt síðastliðins föstudags var brotist inn í þrjú fyrirtæki í Þorlákshöfn. Þessi fyrirtæki voru verslun Olís við Óseyrarbraut, veitingastaðurinn Svarti sauðurinn við Unubakka og Þjónustustöðin sem einnig er við Unubakka. Úr Olís var stolið skiptimynt og eitthvað af bílahreinsivörum. Úr Svarta sauðnum var stolið skiptimynt og fjórum kössum af Viking bjór. Einskis var saknað úr Þjónustustöðinni nema hugsanlega lítilræðis af skiptimynnt. Sömu aðferð var beitt við að komast inn í fyrirtækin það er með því að spenna upp hurð með einhvers konar áhaldi.

Þetta kemur fram í frétt frá lögreglunni á Selfossi. Þá segir að fartölvu hafi verið stolið af skrifstofu starfsmanns í Pakkhúsinu. Það atvik átti sér stað um klukkan 22:00 fimmtudaginn 2. apríl síðastliðinn. Um ræðir Acer fartölvu. Miklu skiptir fyrir eigandann að fá tölvuna til baka vegna skólaritgerðar sem hún hefur að geyma og er eigandum mikils virði vegna þeirrar vinnu sem lagt hefur verið í ritgerðina.

Lögreglu var tilkynnt um hvarf á rimlahliði á Laufskálabyggðavegi við Hrunaveg. Hliðið hafði verið tekið upp í haust sem leið og lagt í vegkantinn. Nú í vetrarlok hafa menn hinsvegar veitt því athygli að hliðið er horfið en verðmæti þess er talin vera á sjöttahundrað þúsund króna.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um umrædd mál eru beðnir um að hafa samband við lögreglun á Selfossi í síma 480 1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×