Innlent

Hallgrímskirkju lokað

Iðnaðarmaður að störfum við Hallgrímskirkju í lok nóvember sl.
Iðnaðarmaður að störfum við Hallgrímskirkju í lok nóvember sl. Mynd/GVA
Hallgrímskirkju verður lokað í sjö til átta vikur í byrjun næsta árs vegna framkvæmda. Viðgerð kirkjuturnsins er lokið og hafa vinnupallar verið teknir niður. Síðasti hluti framkvæmdanna er þó eftir. Settar verða nýjar hurðir í aðaldyr kirkjunnar. Þær eru miklar að burðum og þarf að undirbúa dyraumbúnað allan mjög rækilega fyrir hinar nýju hurðir, að fram kemur í tilkynningu frá kirkjunni. Jafnframt þessari framkvæmd verður kirkjan hreinsuð að innan.

Óhjákvæmilegt er að loka kirkjunni meðan á þessum framkvæmdum stendur. Þó fer fram ýmis konar dagleg starfsemi í kórkjallara kirkjunnar, bænastundir, morgunmessur, fermingarfræðsla, foreldramorgnar, starf með eldri borgurum, barna- og unglingastarf, AA og EA fundir. Prestarnir verða einnig við í kirkjunni á viðtalstímum.

Messur um áramótin verða með hefðbundnum hætti. Á gamlársdag verða hátíðarhljómar klukkan 17 og aftansöngur klukkan 18. Á Nýjársdag verður hátíðarguðsþjónusta klukkan 14. Síðasta messa fyrir lokun verður sunnudaginn 3. janúar klukkan 11.

Fram kemur í tilkynningunni að fyrirhugaðar eru fjórar messuheimsóknir til nágrannasafnaða. Neskirkju 17. janúar, Laugarneskirkju 24. janúar, Dómkirkju 31. janúar og Háteigskirkju 7. febrúar. Þessar messur verða auglýstar jafnóðum, en þær tengjast því einnig að 70 áru eru liðin frá stofnun Reykjavíkurprófastsdæmis.

Áætlað er að framkvæmdir standi yfir í 7 til 8 vikur. Opnunarhátíð kirkjunnar verður auglýst sérstaklega þegar þar að kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×