Erlent

Ungverjar boða lýtaaðgerðafegurðarsamkeppni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Undir hnífnum. Ungverjar ætla sér að keppa í fegurð þeirra sem lagst hafa á skurðarborðið.
Undir hnífnum. Ungverjar ætla sér að keppa í fegurð þeirra sem lagst hafa á skurðarborðið. MYND/Reuters

Ungverjar munu í haust ríða á vaðið með fegurðarsamkeppni eingöngu ætlaða konum sem gengist hafa undir lýtaaðgerðir.

Keppnin gengur undir heitinu ungfrú Plast-Ungverjaland eða Miss Plastic Hungary og fer fram 9. október. Þátttökuskilyrði teljast uppfyllt hafi keppandi gengist undir að minnsta kosti eina skurðaðgerð hjá lýtalækni með svæfingu eða staðdeyfingu. Þannig nægir ekki að hafa látið sprauta hrukkubananum Botox undir húðina, það telst ekki lýtaaðgerð að mati aðstandenda keppninnar.

Fjölmiðlafulltrúinn Reka Bodis segir hugmyndina hvergi nærri nýja af nálinni, hún hafi komið fram árið 1999 en þá hafi Ungverjar hreinlega ekki verið búnir að stunda lýtaaðgerðir svo grimmt að næg þátttaka fengist. Nú hafi þetta breyst og lýtalæknar landsins sjái ekki fram úr verkefnunum.

Hún segir keppninni öðrum þræði ætlað að draga úr fordómum í garð þeirra sem farið hafi í aðgerðir enda séu slíkar útlitsbreytingar eðlilegasti hlutur í heimi. Og ekki virðist vanta keppendur, rúmlega 100 konur hafa nú þegar skráð sig til leiks og ungverskir lýtalæknar eru kampakátir með framtakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×