Lífið

Anna frumsýnd í Cannes

Stuttmyndin Anna verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí.
Stuttmyndin Anna verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí.

Stuttmyndin Anna eftir Rúnar Rúnarsson hefur verið valin á Cannes-hátíðina í maí. Þetta er í annað sinn sem Rúnar hlýtur þennan heiður. „Þetta er algjör snilld. Maður safnar í sarpinn og þetta auðveldar manni að fá peninga til að gera það sem maður vill gera,“ segir Rúnar.

Anna, sem var tekin upp í sjávar­þorpi í Danmörku, er útskriftarmynd Rúnars frá hinum Konunglega danska kvikmyndaskóla. „Ég hef hingað til verið að gera íslenskar myndir en þetta er dönsk framleiðsla, þannig að það er gott að stimpla sig inn í Danmörku.“

Hann segir að það hafi komið sér á óvart að vera boðið til Cannes því myndin hafi ekki verið fullkáruð þegar hún var send inn. „Við vorum að klára myndina í gær [fyrradag]. Þegar maður sendir ekki einu sinni lokaklippið er maður ánægður með að fólk bíti á öngulinn.“

Þetta er í annað sinn sem Rúnar fer til Cannes en í fyrra keppti myndin Smáfuglar um Gullpálmann í flokki stuttmynda. Anna er töluvert lengri en Smáfuglar, eða 35 mínútur, og keppir því í öðrum flokki. Myndin fjallar um hina ungu Önnu sem býr í sjávarplássi úti á landi og finnst hún standa á krossgötum. Umhverfi hennar er að breytast og það á einnig við um sjálfa hana. „Þetta er ósköp róleg mynd sem gerist í Danmörku og er á dönsku. Þeir sem hafa séð myndina og komið til Íslands halda að við höfum skotið myndina í litlum bæ á Íslandi,“ segir Rúnar, sem hefur þegar fengið fyrirspurnir um að sýna myndina á mörgum erlendum kvikmyndahátíðum.

Síðustu myndir hans, Smáfuglar og Síðasti bærinn, hafa báðar fengið frábærar viðtökur. Smáfuglar hefur hlotið yfir fjörutíu alþjóðleg verðlaun og Síðasti bærinn var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2005 og sópaði einnig til sín alþjóðlegum verðlaunum.

Rúnar útskrifast úr danska kvikmyndaskólanum 14. júní eftir fjögurra ára nám og þá tekur við undirbúningur fyrir fyrstu kvikmynd hans í fullri lengd. Hefur hún fengið vinnuheitið Hannes og er stefnt á að tökur hefjist sumarið 2010.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.