Lífið

Kærastinn með til Moskvu

„Þetta stóð tæpt. Spurning hvort maður kæmist út af prófunum. En ég næ því alveg," segir Ólafur Ólafsson - kærasti Eurovision-stjörnunnar Jóhönnu Guðrúnar sem nú undirbýr sig sem sem mest hún má undir Eurovision-keppnina sem fram fer í Moskvu 12. maí.

Þjóðinni brá í brún þegar kom í ljós að vegna sparnaðaraðgerða kæmist helsta fylgdarlið ekki með Eurovision-hópnum til Moskvu. Ekki einu sinni var gert ráð fyrir kærasta Jóhönnu Guðrúnar. En nú hefur ræst úr því sem betur fer. Ólafur fer út og það í boði föður síns, Ólafs Björnssonar forstjóra. Hann býður stráknum sínum og fara þeir feðgar út 10. maí, dvelja eina nótt á hóteli í Kaupmannahöfn og fara svo til Moskvu þar sem þeir verða í rúma viku. Jóhanna og hópurinn leggja hins vegar af stað 3. maí. „Við pabbi ákváðum að kíkja og förum á eigin vegum. Já, þetta verður skemmtilegt," segir Ólafur sem nú getur stutt við bakið á sinni heittelskuðu.

„Já, já, ég mun gera það. Og spái henni tvímælalaust sigri í undanúrslitunum. Ég er viss um að hún kemst upp úr þeim. Hún hefur verið að fá svo góða dóma."

Þeir feðgar verða ekki á sama hóteli og Jóhanna Guðrún heldur á Metrópól-hótelinu sem er í hjarta Moskvuborgar - fimm stjörnu hótelsem stendur andspænis Bolsoj-óperunni og aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá Kreml. Sögufrægt hótel og reglulegur gestur í rússneskum bókmenntum.

Eurovision-hópurinn dvelst hins vegar í úthverfi í sparnaðarskyni; á hóteli sem heitir Cosmos. Það er fjögurra stjörnu hótel sem byggt var í tengslum við Ólympíuleikana árið 1980. Þetta þýðir að Ólafur gistir á umtalsvert betra hóteli en sjálf Eurovision-stjarnan, kærasta hans, Jóhanna Guðrún.

Ólafur er á lokasprettinum með að ljúka stúdentsprófi og útskrifast eftir rúmt hálft ár frá Flensborg þar sem hann leggur stund á viðskiptafræði. Hann hyggst fara í sumarskóla og leggja stund á ensku til undirbúnings fyrir háskólanám þar sem Ólafur stefnir á viðskiptafræðina. Ólafur spilar á gítar auk þess sem hann stundar lyftingar sér til heilsubótar. Hann lætur sér fátt finnast um fjölmiðlafárið sem nú er um Jóhönnu Guðrúnu. Til dæmis var því var slegið upp í Monitor að Eurovision-stjarnan væri hrein mey. Þetta má sjá á síðu þar sem Jóhanna svaraði mjög nærgöngulum spurningum lesenda.

„Já, ég held nú að það hafi verið talsverð kaldhæðni í því svari hennar. Alveg örugglega því hún er búin að vera í föstu sambandi í tvö ár," segir Ólafur sem hefur engar áhyggjur af því að kærastan klári sig ekki af spurningum fjölmiðlamanna úti í Moskvu.

jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.