Innlent

Vill eignarnám og niðurfærslu lána

Talar máli neytenda. Gísli Tryggvason hefur sent forsætisráðherra ítarlegar tillögur sínar til lausnar vanda heimilanna.
Fréttablaðið/anton
Talar máli neytenda. Gísli Tryggvason hefur sent forsætisráðherra ítarlegar tillögur sínar til lausnar vanda heimilanna. Fréttablaðið/anton

Talsmaður neytenda telur að ríkið ætti að taka öll lán, önnur en lán Íbúðalánasjóðs, eignarnámi og niðurfæra síðan hluta þeirra í samræmi við mat sérstaks gerðardóms. Þetta kemur fram í ítarlegum tillögum sem Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hefur sent Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Gísli leggur til að húsnæðislán annarra stofnana en Íbúðalánasjóðs verði færð til ríkisins og kröfuhöfum bætt tjónið eftir almennum reglum. Síðan verði gerðardómur skipaður fulltrúum bæði skuldara og kröfuhafa og hann fái það lögbundna hlutverk að taka bindandi ákvörðun um hvaða íbúðalán skuli færð niður, hve mikið og hvernig það skuli gert. Það geti verið misjafnt eftir tegund og stöðu láns eða aðstæðum lántakenda. Niðurfellingin skuli ekki vera skattskyld.

Gísli segir kjarna málsins vera þann að neytendur – einkum skuldarar íbúðalána – muni að óbreyttu einir bera skellinn af efnahagskreppunni í stað þess að deila byrðinni með kröfuhöfum. Ábyrgð lánveitenda sé hins vegar meiri en svo að hægt sé að réttlæta þá niðurstöðu.

Gísli telur forsendur fyrir lánasamningum að mestu brostnar. Neytendur hafi verið blekktir við gerð lánasamninga, enda hafi þeir ekki haft forsendur til að meta ástandið í efnahagsmálum – ólíkt lánveitendum. Einkum sé hæpið að samningar um gengis- og verðtryggð lán standist, enda hafi ekki mátt gera ráð fyrir kerfishruni eins og því sem hér varð og áhrifum þess á verðbólgu og gengi.

Enn fremur telur Gísli hugsanlegt að lánveitendur og ríkið hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart lánþegum með því að bregðast ekki af nægum krafti við aðstæðum og blekkja jafnvel almenning með því að halda upplýsingum leyndum. Þá kunni eigendur lánafyrirtækja að vera skaðabótaskyldir hafi þeir unnið gegn gengi íslensku krónunnar. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×