Lífið

Perlur og ævintýri

Kristjana SKúladóttir opnar síðuna sögustund.is í tilefni afmælis SOS-barnaþorpanna.Fréttablaðið/stefán
Kristjana SKúladóttir opnar síðuna sögustund.is í tilefni afmælis SOS-barnaþorpanna.Fréttablaðið/stefán

Sögustund.is, heimasíða sem inniheldur lesið barnaefni, verður formlega tekin í notkun í dag.

Heimasíðan er hugarfóstur leikkonunnar Kristjönu Skúladóttur og mun allur ágóði hennar fyrstu tvo mánuðina renna óskiptur til SOS-barnaþorpanna á Íslandi.

„Ég hef gengið með þessa hugmynd nokkuð lengi og hún hefur svo með tímanum þróast í þessa átt. Eiginmaður minn sá um uppsetningu vefjarins, en ég safnaði saman sögunum og las inn, þetta er því hálfgert fjölskyldufyrirtæki," segir Kristjana um tilurðina.

Á síðunni er meðal annars að finna gömul íslensk ævintýri í bland við Grimms-ævintýri auk annarra perlna og líkt og áður hefur komið fram mun allur ágóði af sögunum renna óskiptur til SOS-barnaþorpanna.

„Mér finnst hugmyndin að baki SOS-barnaþorpunum vera stórkostleg og mig langaði að leggja þeim lið. Þetta er brýnt málefni og þó að kreppi að hérna núna þá megum við ekki gleyma öðrum á meðan," segir Kristjana og tekur fram að von er á fleiri sögum inn á vefinn í framtíðinni.

„Þetta er bara byrjunin, síðan mun vaxa og dafna í framtíðinni."

Vefsíðan opnar í dag á afmælisdegi SOS-barnaþorpanna og verður afmælishóf haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni dagsins.

„Ég vona að undirtektirnar verði góðar því við viljum reyna að styrkja SOS eins og við mögulega getum," segir Kristjana að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.