Innlent

Vonbrigði að boði um umsögn bankans var hafnað

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það olli sjálfstæðismönnum í viðskiptanefnd vonbrigðum að boði Evrópska seðlabankans um að veita umsögn um frumvarp forsætisráðherra um Seðlabanka Íslands skyldi hafa verið hafnað. Þetta segir Birgir Ármannsson nefndarmaður í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum.

Birgir segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafi talið sjálfsagt og eðlilegt að leita eftir þessari umsögn, enda sé mikilvægt að við afgreiðslu málsins í nefndinni komi fram álit sérfróðra aðila, innlendra sem erlendra, á efnisatriðum frumvarpsins.

„Meirihluti nefndarmanna, fulltrúar VG, Samfylkingar og Framsóknarflokksins höfnuðu hins vegar tillögu sjálfstæðismanna um þetta og báru því einkum við að ætlunin væri að vinna málið hratt og því gæfist ekki tími til að bíða eftir þessari umsögn. Sjálfstæðismenn óskuðu þá eftir því að eftir því yrði leitað að ECB skilaði umsögn innan fárra daga, enda væri hvort sem er ljóst að talsverð vinna væri eftir við þetta mál innan nefndarinnar. Ekki var heldur á það fallist af hálfu meirihluta nefndarinnar," segir Birgir.

Birgir segir ljóst að innan ECB sé að finna verulega sérþekkingu á löggjöf um seðlabanka, sem eðlilegt hefði verið að nýta við meðferð þessa frumvarps.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×