Innlent

Skyrsölu í Bretlandi frestað eftir hrunið

Íslenskt skyr í bandarískri búðarhillu Hið séríslenska skyr á að ná fótfestu beggja vegna Atlantsála og styrkja þannig grundvöll íslensks mjólkuriðnaðar.
Íslenskt skyr í bandarískri búðarhillu Hið séríslenska skyr á að ná fótfestu beggja vegna Atlantsála og styrkja þannig grundvöll íslensks mjólkuriðnaðar.

Stórhuga áformum um sölu íslensks skyrs í Bretlandi var slegið á frest um óákveðinn tíma eftir hrun bankakerfisins í október. „Við viljum fara varlega í löndum eins og Bretlandi af því að ég tel að ímynd Íslands og þar af leiðandi íslenskra vara hafi skaðast. En ég er líka þeirrar skoðunar að það fenni fljótt yfir mál af þessu tagi og að við ættum að geta komið inn með íslenska skyrið á þessa markaði seinni partinn á þessu ári,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Nýlands ehf., sem annast sölu erlendis fyrir Mjólkursamsöluna.

Að sögn Guðbrands er talsverður undirbúningur þegar að baki vegna fyrirhugaðrar sölu á skyri í Bretlandi. Ætlunin sé að nýta 380 tonna tollfrjálsan kvóta fyrir sölu á skyri sem samið hafi verið um við Evrópusambandið árið 2007.

„Við unnum mikið í því í fyrrasumar og fyrrahaust að undirbúa að setja þetta á breska markaðinn. Það var unnið mikið starf við að tengja skyrið við íslenska upprunann og við settum fram slagorð sem tengdu skyrið vel við Ísland. En þá varð bankahrunið og Icesave-málið og við settum þessi áform til hliðar í ljósi aðstæðna,“ útskýrir Guðbrandur.

Guðbrandur, sem áður var forstjóri Mjólkursamsölunnar, er annar tveggja eigenda Nýlands sem frá miðju síðasta ári hefur haft tveggja ára samning um að annast útflutning fyrir Mjólkursamsöluna. Skyr hefur verið flutt út til Bandaríkjanna frá árinu 2005. Útflutningurinn þangað nam um 153 tonnum í fyrra og fyrir það fengust um 75 milljónir króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. Magnið var svipað árið 2007.

„Við erum að vonast til að sjá aukningu inn á bandaríska markaðinn á þessu ári og vonumst til að geta sýnt líka töluverða aukningu inn á markaðinn í Evrópu þannig að við förum að nýta þennan kvóta sem við eigum fyrir skyr inn á þessi markaðssvæði,“ segir Guðbrandur sem telur íslenskan mjólkuriðnað eiga góð sóknarfæri í útflutningi. Hann bendir á að þegar sé flutt út umtalsvert magn af undanrennudufti og smjöri.

„Ég er alveg sannfærður um það, ef við höldum rétt á málum og náum að styðja við markaðssetninguna í sérvöru eins og skyrinu, að hægt sé að byggja upp nokkuð góða markaði til lengra tíma litið.“ gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×