Innlent

Meintur hnífakastmaður neitar að hafa beitt börn sín ofbeldi

Maður sem ákærður hefur verið fyrir að beita börnin sín þrjú ofbeldi neitaði sök við þingfestingu málsins. Hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa kastað hnífum að elsta barni sínu.

Málið kom upp í byrjun síðasta árs en þá hófu barnaverndaryfirvöld að rannsaka meint ofbeldi í garð þriggja barna sem bjuggu ásamt föður sínum. Hann hafði nokkrum árum áður unnið áralanga forræðisdeilu við móðir barnanna en hún átti við vímuefnavanda að stríða. Vísbendingar voru um að börnin hefðu um langa hríð verið beitt alvarlegu ofbeldi. Grunur beindist fljótlega að föður barnanna en hann neitaði staðfastlega sök. Faðirinn er ekki bara grunaður um að beitt börnin ofbeldi heldur er hann einnig grunaður um að hafa notað elsta barnið sitt sem skotskífu og kastað hnífum að því.

Börnin hafa búið hjá ömmu sinni og afa undanfarið og farnast ágætlega samkvæmt heimildum fréttastofu. Þau sækja til að mynda regluleg viðtöl á Barna og unglingageðdeild. Ríkissaksóknari fékk málið á sitt borð í lok síðasta árs og gaf svo út ákæru á hendur föðurnum í byrjun þessa árs.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í lok janúar. Við þingfestinguna neitaði faðirinn öllum sakargiftum. Réttarhaldið er lokað og ekki hægt að fá afrit af ákæruskjali en heimildir fréttastofu herma hins vegar að í ákærunni sé föðurnum gefið að sök líkamsárásir gegn öllum þremur börnunum og að hafa brotið gegn barnaverndarlögum.

Þá hefur réttargæslumaður barnanna lagt fram bótakröfu fyrir þeirra hönd sem hleypur á nokkrum milljónum króna. Málflutningur fer fram í lok þessa mánaðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×