Innlent

Varað við níðingnum fyrir tæpum tveimur árum

Maðurinn þótti haga sér undarlega í netheimum.
Maðurinn þótti haga sér undarlega í netheimum.

Barnaverndarstofa fékk viðvörun vegna mannsins sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir að misnota barnunga dóttur sína ítrekað í vikunni. Maðurinn virðist hafa verið virkur í netsamfélagi og sendi stúlka frá Bandaríkjunum Barnaverndarstofu ábendingu í september árið 2007 þar sem hún efaðist um getu mannsins til þess að ala upp stúlkuna. Það var svívirðileg hegðun mannsins í netheimum sem fékk hana til þess að senda bréfið.

Í samtali við Vísi staðfestir Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu að hafa móttekið umrætt bréf. Hann segist þó ekki getað tjáð sig um einstaka mál.

Maðurinn var handtekinn í nóvember á síðasta ári og síðar hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa unnið dóttur sinni skaða. Þegar rætt var við barnið lýsti hún kynlífsathöfnum með dúkkum og var talin mjög kynferðislega „virk" miðað við aldur.

Maðurinn og barnsmóðir hans, sem voru gift í þrjá mánuði, höfðu verið skjólstæðingar félagsmálayfirvalda allt frá því stúlkan fæddist. Strax eftir fæðingu barnsins var talin ástæða til þess að hafa eftirlit með því hvernig barninu vegnaði sökum þess að báðir foreldrarnir höfðu átt við mikil vandamál að stríða.

Virkur á erlendum spjallsíðum

„Ég er að skrifa þér frá Bandaríkjunum vegna áhyggja af barni sem ég held að búi á Íslandi. Ég er ekki viss um að þú getur hjálpað, eða hversu langt þú getur farið með þetta mál. Við erum nokkur sem höfum miklar áhyggjur af velferð barns sem gæti búið með foreldri sem þarf á mikill andlegri aðstoð að halda," skrifar stúlkan í bréfinu til Braga sem birt er á spjallsíðu á netinu.

Stúlkan og vinir hennar eru meðlimir í netsamfélagi sem maðurinn var virkur í en hegðun hans þar vakti miklar áhyggjur fólksins.

„Þetta er aðili sem ég hef ekki hitt „í veruleikanum" en þekki af samtölum í netheimum í gegnum spjallrásir. Ef ég er hreinskilin, þá virðist hegðun hans oft á tíðum vera sprottinn upp af miklum hugarórum þannig að ég er ekki viss um að þetta barn sé til í raun og veru. En einungis sú hugsun að þessi vitfirringur fari með forsjá yfir ungu barni nægir mér til þess að hafa samband.

Ég geri mér grein fyrir því að þú getir ekki deilt rannsóknargögnum með mér, en ég vona að þú takir áhyggjur mínar alvarlega og gangir úr skugga um að þetta barn sé ekki í hættu," segir stúlkan í bréfinu.

Síðan koma upplýsingar um manninn og dæmi af ummælum hans og hegðun. Meðal annars ræðir hann mjög opinskátt um limastærð sína við 15 ára gamla stúlku og svo virðist sem hann hafi ofsótt stúlku í Svíþjóð sem hann sagðist ástfanginn af. Stúlkan þurfti að grípa til þess ráðs að skipta um símanúmer og tölvupóstfangann eftir að hann ferðaðist til Stokkhólms til þess að hafa upp á henni að sögn stúlkunnar.

Stóðst hæfnispróf

Einnig er bent á nokkuð nákvæma lýsingu mannsins á æsku sinni þar sem hann segist sjálfur hafa verið misnotaður kynferðislega og lýsir þremur sjálfsvígstilraunum sínum.

Áhyggjur stúlkunnar virðast hafa verið á rökum reistar en Bragi getur ekki staðfest hvort þetta bréf hafi hjálpað til við rannsókn málsins. Hann segir að þegar ábending sem þessar berist sé það ekki hlutverk Barnaverndarstofu að rannsaka málið. Þau hinsvegar geri félagsmálayfirvöldum á viðkomandi stað viðvart.

Líkt og komið hefur fram í fréttum höfðu félagsmálayfirvöld haft málefni mannsins til umfjöllunnar lengi og meðal annars framkvæmt hæfnispróf þar sem hann var metinn hæfur til þess að hafa forsjá með barninu.


Tengdar fréttir

Bróðir barnaníðings dæmdur fyrir misnotkun á barnungri dóttur sinni

Karlmaður var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að misnota dóttur sína ítrekað frá árunum 2006 til nóvember 2008. Dóttir hans er þriggja og hálfs árs gömul í dag. Þá var amma barnsins einnig grunuð um verknaðinn til að byrja með en síðan var fallið frá þeim gruni. Hálfbróðir mannsins er sjálfur dæmdur barnaníðingur samkvæmt dómsorði en hann er núna búsettur í Taílandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×