Innlent

Semja þarf nýtt seðlabankafrumvarp

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í viðskiptanefnd segir augljóst að fyrirhugað frumvarp um Seðlabankann sé meingallað og að það þarfnist gagngerrar endurskoðunnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti í gær umsögn um frumvarpið og segir Birgir að sú gagnrýni sem þar birtist sé í takt við það sem sjálfstæðismenn hafi bent á í síðustu viku.

„Þessi umsögn frá AGS kom í gær og þegar maður les hana þá áttar maður sig á því hvers vegna þessi vandræðagangur var í forsætisráðuneytinu um síðustu helgi með fyrstu athugasemdir sjóðsins." Birgir segir að athugasemdir AGS lúti að öllum meginatriðum frumvarpsins. „Það má segja að frumvarpið sem slíkt þarf á algjörri heildarendurskoðun að halda, ef við tökum eitthvað mark á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum," segir Birgir og bendir á að hjá sjóðnum starfi færustu sérfræðingar á sviði seðlabankalöggjafar. „Það er meðal annars hlutverk sjóðsins að veita aðildarríkjunum ráðgjöf varðandi skipan mála í seðlabönkum. Þess vegna er það mín skoðun að athugasemdir hans hljóti að hafa mikið vægi."

Málið er nú til umfjöllunar hjá viðskiptanefnd en Birgi sýnist einsýnt að byrja þurfi á málinu frá grunni. „Bara byrja upp á nýtt, semja nýtt frumvarp. Vonandi verður þá hægt að standa betur að málum en forsætisráðherrann og ríkisstjórnin hafa gert varðandi þetta frumvarp."

Birgir segir þau atriði sem AGS gagnrýnir í umsögn sinni séu í raun þau sömu og sjálfstæðismenn gagnrýndu í umræðum á Alþingi í síðustu viku. „Það er í fyrsta lagi fyrirkomulagið á skipun bankastjórnar. Í öðru lagi menntunarkröfur til bankastjóra og í þriðja lagi fyrirkomulag peningastefnunefndar. Við erum ekki á móti því að það verði stofnuð peningastefnunefnd en við teljum að það verði að hugsa fyrirkomulag hennar alveg upp á nýtt miðað við það sem fram kemur í frumvarpinu."

Fundur í viðskiptanefnd hefst núna á ellefta tímanum og þar segist Birgir ætla að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. „Við munum fá fjölda gesta til að tjá sig um efnisatriði frumvarpsins og síðan eigum við von á því að skriflegar umsagnir berist eitthvað fram í næstu viku. Ég mun leggja á það höfuðáherslu að menn setjist niður og reyni að hugsa þessi mál upp á nýtt þannig að við fáum nýja seðlabankalöggjöf sem er ekki eitthvað hálfkák heldur til þess fallin að gera Seðlabankann öflugri," segir Birgir Ármannsson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×