Innlent

Reynt að þoka samgöngumiðstöð áfram

Tillaga um helmingi minni samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli en áður var áformað er nú til umræðu hjá flugmálayfirvöldum með það að markmiði að koma framkvæmdum í gang þegar í haust.

Fokkerar Flugfélagsins voru að koma og fara þegar við mynduðum á Reykjavíkurflugvelli í hádeginu dag, bílastæðin voru þéttsetin og inni í flugstöðinni var ys og þys enda nokkurhundruð manns að fara í gegn á skömmum tíma, ekki bara í innanlandsflugi heldur einnig í millilandaflugi því þota Atlantic Airways frá Færeyjum var einnig að lenda. Það var því vel troðið þegar á sama tíma var verið að tollafgreiða milllilandafarþegana og innrita innanlandsfarþegana.

Áratugadeilur um framtíð flugvallarins hafa hins vegar komið í veg fyrir úrbætur fyrir farþega og starfsfólk og þótt ríki og borg hafi samið um nýja samgöngumiðstöð norðan Loftleiðahótels finnst samgönguráðherra hægt miða. Kristján L. Möller segir málin einfaldlega stopp í borgarkerfinu gagnvart skipulagssmálum.

Svona átti samgöngumiðstöðin að líta út en verkefnisstjórn hefur verið að undirbúa sex til níu þúsund fermetra byggingu, sem svokölluð einkaframkvæmd átti að fjármagna. En það var fyrir kreppu og nú telja vísir menn forsendur brostnar fyrir svo stórri byggingu.

Að beiðni samgönguyfirvalda er verkefnisstjórn nú að skoða nýja kosti; að byggingin verði mun minni, allt niður í 3.500 fermetra. Þá er verið að skoða tvo kosti um staðsetningu, að sögn Ólafs Sveinssonar verkefnisstjóra, annarsvegar sama staðinn norðan Loftleiðahótels en hins vegar að byggingin verði reist austan við gömlu Flugfélagsafgreiðsluna.

Gangi þessi áform eftir um endurskoðun verkefnisins vonast flugmálayfirvöld til að framkvæmdir við nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli geti hafist síðar á árinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×