Innlent

HR fær 300 milljóna króna rannsóknarstyrk frá ESB

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík.

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík hefur hlotið tveggja milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu til gervigreindarrannsókna.

Styrkurinn samsvarar um 300 milljónum íslenskra króna og er sá langhæsti sem veittur hefur verið íslenskum aðilum til rannsókna á sviði tölvunarfræða ásamt því að vera hæsti rannsóknarstyrkur sem fallið hefur vísindamönnum við Háskólann í Reykjavík í skaut, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá skólanum.

Skólinn kemur til með að leiða þriggja ára rannsóknarverkefni á sviði gervigreindar í samstarfi við breska fyrirtækið Communicative Machines Limited og fjóra evrópska háskóla. Grunntækni gervigreindar er meginviðfangsefni rannsóknarinnar sem beinist að því að þróa nýjar aðferðir við gerð gervigreindra vitvera sem geta numið flókin atferli og lært án beinnar íhlutunar forritara, segir í tilkynningunni.

Það er dr. Kristinn R. Þórisson, dósent við tölvunarfræðideild HR, sem er upphafsmaður rannsóknarinnar og mun leiða samstarf háskólanna fimm. Kristinn segir að smíðuð verði ný tegund hugbúnaðar, gædd sjón og heyrn, sem fylgst geti með hegðun fólks, einfaldlega með því að hlusta og horfa. Hugbúnaðurinn muni í fyllingu tímans stýra sýndarvélmenni sem lært geti af eigin rammleik að herma eftir mönnum og þroskast í hegðun og hugsun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×