Innlent

Risinn lendir eftir tvo tíma

Breki Logason skrifar
Sultan Kösen lendir hér á landi í kvöld.
Sultan Kösen lendir hér á landi í kvöld.
Hæsti maður heims Sultan Kösen mun lenda á Íslandi eftir tæpa tvo tíma en hann er litlir 2,46 metrar á hæð. Hann er ekki bara hæstur, heldur er hann einnig með stærstu lófa og stærsta fót í heimi. Hann fær sér tyrkneska súpu annað kvöld og heilsar síðan upp á Loga í beinni. Íslendingum gefst síðan kostur á að hitta Sultan í Smáralindinni á laugardaginn, þar sem hann mun árita nýútkomna Heimsmetabók Guiness með fingrafari.

Áætlaður lendingartími er 23:05 en Sultan kemur hingað til lands ásamt bróður sínum og túlki, því hann skilur ekki stakt orð í ensku. Það er Forlagið sem stendur að komu risans hingað til lands í samstarfi við Hagkaup og Smáralind, en útgáfan gefur einmitt út Heimsmetabók Guiness.

Það gekk ekki þrautarlaust að finna bifreið fyrir Sultan, en Bílaleiga Akureyrar mun hafa útvegað nógu stóra, og háa, bifreið fyrir risann. Hann mun síðan gista í sérhönnuðu rúmi á Hótel Loftleiðum og fer af landi brott á sunnudag.

Eins og Sultan hefur sjálfur sagt þá er hann mjög ánægður með þá athygli sem hann hefur fengið eftir að ljóst var að hann er hæsti maður í heimi. Hann sér þann möguleika að verða frægur, og þannig verða ástfanginn og eignast konu.

Það er því um að gera fyrir einstæðar konur sem eru veikar fyrir stórum mönnum að drífa sig í Smáralindina á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×