Samtónn, samstarfsvettvangur tónlistarrétthafa, stendur fyrir verkefninu Íslenskt tónlistarsumar sem hefur verið sett á laggirnar. Er því ætlað að styrkja innviði og ímynd íslensks tónlistarlífs í því ölduróti sem hefur verið undanfarna mánuði. Af því tilefni stendur til að halda stórtónleika í Reykjavík snemma í sumar. Nákvæm tíma- og staðsetning hefur ekki verið ákveðin. Fleiri uppákomur eru einnig fyrirhugaðar í sumar.
Nýráðinn framkvæmdastjóri verkefnisins er Helgi Pjetur Jóhannsson, fyrrverandi starfsmaður Tónlist.is og stofnandi Cod Music-útgáfufyrirtækisins. „Ef allir leggjast á eitt, útgefendur, fjölmiðlar eða tónlistarmennirnir sjálfir, og notfæra sér þetta átak tel ég að þetta verði gríðarlega mikilvægt og ákveðin vakning fyrir íslenska tónlist,“ segir hann.
„Þá skilar það sér vonandi í aukinni plötusölu, hlustun á íslenska tónlist í útvarpi og svo framvegis. Þetta snýst um að vekja fólk til lífsins og fá það til að taka þátt í þessu og njóta íslenskrar tónlistar.“- fb