Innlent

Þrjár milljónir fyrir eina stöng í Alta

Sturla Birgisson veiddi þennan lax í ánni Yokanga í Rússlandi. Hann var 38 pund að stærð sem er algeng stærð í ánni Alta.
Sturla Birgisson veiddi þennan lax í ánni Yokanga í Rússlandi. Hann var 38 pund að stærð sem er algeng stærð í ánni Alta.
Verndarsjóður villtra laxastofna, NASF, undir stjórn Orra Vigfússonar, fékk í sinn hlut allt að fimmtán milljónir króna í árlegu veiðileyfauppboði sínu í Ósló. Meðal annars fengust þrjár milljónir fyrir eina stöng í tvo daga á frægasta veiðisvæði árinnar Alta í Noregi. Áin er nálægt bænum Alta sem er í Finnmörku í Norður-Noregi. Veiðivefurinn vötn&veiði segir frá þessu.

Veiðileyfin í Alta eru á frægasta svæði árinnar þar sem næsta útilokað er að tryggja sér leyfi. Þar veiða alltaf sömu mennirnir. Stangveiðiáhugamenn eru flestir sammála um það að áin sé ein besta laxveiðiá í heimi. Veiðileyfin sem voru til sölu að þessu sinni eru á svæði í ánni sem er frægt fyrir stórlaxa sína og er talið mesta stórlaxasvæði sem völ er á þar sem Atlantshafslax gengur úr sjó. Ekki er óalgengt að veiða 40 til 50 punda laxa í ánni en úr íslenskum ám er sjaldgæft að veiða laxa yfir tuttugu pundum að stærð.

Veiðileyfi á uppboðinu voru allt frá Argentínu til Íslands. Uppboðið byggir á því að leigutakar láta af hendi rakna veiðidaga til NASF til að styrkja verndarsjóðinn. NASF selur síðan dagana hæstbjóðendum. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×