Innlent

Skilaréttur neytenda

Karen Kjartansdóttir skrifar

Almennur afgreiðslutími er í flestum verslunum í dag. Búast má við því að margir vilji nota hluta dagsins til að skipta þeim jólagjöfum sem þeir eru ekki alls kostar sáttir við.

Útsölur eru hafnar í Bandaríkjunum og Bretlandi. Eitthvað er um að jólaútsölur hefjist einnig snemma hér á landi og samkvæmt upplýsingum á vef Neytendasamtakanna er talsvert um að bæði neytendur og verslunareigendur leiti upplýsinga hjá samtökunum um skilarétt þegar verð eru lækkuð í verslunum.

Það segir einnig að því miður virðist fáir starfsmenn þekkja rétt neytenda um skilarétt og ekki sé farið nægilega vel eftir reglum. Þeir hvetja neytendur því að kynna sér reglur um skilarétt sinn áður en þeir fara að skipta vörum.

Meginatriði þessara reglna eru að: Neytandi á að minnsta kosti 14 daga skilarétt, vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil, inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru, gjafabréf gilda í fjögur ár frá útgáfudegi og inneignarnótur í allt að fjögur ár, skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið en gott er að hafa í huga að hafi hlutur verið keyptur á útsölu sem síðar kom í ljós að var gallaður á neytandi almennt rétt á úrbótum rétt eins og þegar vara er keypt fullu verði.

Gjafabréf eiga að gilda á útsölu rétt eins og um peninga væri að ræða.

Á flestum stöðum er sami afgreiðslutími viðhafður í dag og tíðkast þar á venjulegum sunnudegi. Til að mynda eru verslanir í Smáralind opnar frá eitt til sex og eins í Kringlunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×