Innlent

Strætó með litla þjónustu um páskahelgina

Strætó bauð ekki upp á neina þjónustu í gær, og ekki verður heldur hægt að taka strætó á morgun, páskadag.

Á skírdag var ekið samkvæmt sunnudagsáætlun, sem er lágmarksþjónusta og í gær, föstudaginn langa, var enginn akstur. Í dag er hefðbundinn laugardagsakstur en á morgun býður Strætó ekki neina þjónustu. Þetta er í fyrsta skipti sem ekki er hægt að taka Strætó á stærstu páskadögunum.

Við kíktum niður á Hlemm í dag og ræddum við fólk sem nýtir sér þjónustu Strætó reglulega. Ein kona sem fréttastofa spjallaði við sagði að það kæmi sér mjög illa að Strætó bjóði ekki upp á akstur yfir páskana, hún hefði engin önnur úrræði til að komast leiða sinna. Þetta láti hana líða eins og hún sé annars flokks, eins og hún orðaði það sjálf.

„Við lítum nú kannski svo á við séum beint að skera niður þjónustuna þar sem við höfum fylgst með faraþegafjölda á þessum dögum, sem sagt Föstudaginn langa, páskadaga og þessa helgidaga, og okkar niðurstaða er að þessi þjónusta er afskaplega lítið notuð þessa dagana," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó.

Reynir segir að kostnaðurinn við að halda úti þjónustu á helgidögum sé tvöfalt meiri en venjulega daga, meðal annars vegna meiri launakostnaðar. Strætó hafi takmarkaða fjármuni að spila úr og þurfi því að velja og hafna.

„Þetta er nú kannski andstæðurnar í kreppunni. Allar þjónustu sem er hægt að kalla samfélagslega eða lögbundna eða félagslega þurfa aukningu þegar harðnar á en að sama skapi eru minni fjármunir hjá sveitarfélögunum til ráðstöfunar," segir Reynir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×