Innlent

Financial Times gagnrýnir framkomu Breta við Ísland

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Brot úr leiðaranum þar sem Bretar eru gagnrýndir.
Brot úr leiðaranum þar sem Bretar eru gagnrýndir.
Í leiðara breska viðskiptablaðsins Financial Times þann 17. júlí er Icesave samningurinn sagður ójafn og Bretland ekki vinaþjóð í raun.

Leiðarinn birtist daginn eftir að Alþingi samþykkti aðildarumsókn að Evrópusambandinu og fjallar að mestu leyti um hugsanlega sambandsaðild landsins.

Á einum stað er þó komið inn á samninga breskra yfirvalda við íslensk.

„Bretland hefur ekki síst sýnt sig sem ótraustan vin og neyddi Ísland til að samþykkja ójafnan samning í síðustu viku þar sem íslenskir skattgreiðendur eru látnir bera byrðar þess að endurgreiða einfeldningslegum breskum sparifjáreigendum 3,8 milljarða bandaríkjadala. Kostir þess að vera stór hafa aldrei verið jafn morgunljósir," segir í leiðaranum.

Þar er einnig sagt frá því að bæði Frakkland og Þýskaland hafi aftekið aðild fleiri ríkja að Evrópusambandinu áður en Lissabon sáttmálinn verður staðfestur.

Í leiðaranum kemur fram að þrátt fyrir að ljón í vegi Íslands að Evrópusambandsaðild séu færri en til dæmis Tyrklands, fái Ísland ekki fulltrúa í Brussel fyrr en 2012 í fyrsta lagi.

Íslendingar ættu því ekki að halda niðri í sér andanum, en ESB megi heldur ekki draga lappirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×