Innlent

Afi og amma fela barnabarnið: „Veikja stöðu sína stórlega“

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

„Það er rétt að leggja áherslu á að það er hægt að skjóta svona málum til kærunefndar barnaverndarmála og síðan má kæra þá málsmeðferð til Barnaverndarstofu ef svo ber við," segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu en RÚV sagði frá því fyrr í kvöld að afi og amma þriggja ára drengs væru farin í felur vegna þess að barnaverndarnefnd hugðist taka drenginn af þeim og setja í fóstur.

Bragi segist ekki geta tjáð sig um þetta einstaka mál en almennt séð þá eru það eðlilegri viðbrögð að kæra svona mál til kærunefndar hafi fólk eitthvað út það að setja.

Afi og amma drengsins hafa verið í felum undanfarna sólarhringa þar sem taka átti barnið af heimili þeirra. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að móðir barnsins hefði verið svipt forræði þess fyrir nokkrum árum vegna vímuefnaneyslu. Barnið hefur mestan hluta ævinnar alist upp í skjóli ömmu og afa í samstarfi við barnaverndarnefnd staðarins. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hefur ömmunni og afanum ekki tekist að halda móður drengsins frá heimili hans og því vill nefndin að hann flytji af því.

„Það eru allnokkrir öryggisventlar sem gera það að verkum að fólk á ekki að þurfa að fara í felur með börn," áréttar Bragi en lögreglan leitar ömmunnar og afans. Bragi segir svona mál afar alvarleg, „og þá sérstaklega í ljósi þess að þarna er verið að grípa fram fyrir hendurnar á þar til bærum aðilum."

Aðspurður segir Bragi svona mál koma af og til upp. Þau séu hinsvegar fátíð - kannski kemur eitt slíkt mál upp á ári.

„Það má alltaf búast við slíku. Þetta eru mjög viðkvæm mál og svona löguðu fylgir alltaf mikil sorg og tilfinningalegt álag," segir Bragi. Spurður hvort brottnám barnsins hafi afleiðingar fyrir afann og ömmuna segir Bragi: „Þau veikja sína stöðu stórlega."

Bragi segir að þrátt fyrir að það sé lagabókstafur til staðar sem leyfi að refsa fólki fyrir að nema börn á brott með þessum hætt, þá hafi honum aldrei verið beitt á Íslandi.

Að lokum bendir Bragi á að börn eru aldrei tekin af heimilum nema að undangegnum ítrekuðum leiðbeiningum um það sem betur má fara hjá fósturforeldrum.

„Það er ekki nema það sé skellt algjörum skollaeyrum við þeim leiðbeiningum sem það er gripið til þessara úrræða," segir Bragi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×