Innlent

Fjölþættar aðgerðir til að rétta fjármálakerfið við

Ríkisstjórnin kynnti í morgun fjölþættar aðgerðir til að rétta við fjármálakerfið í landinu og sem eiga að auðvelda einstaklingum of fyrirtækjum að standa undir aukinni skuldabyrði. Forsætisráðherra viðurkennir að margt sé sótt í smiðju síðustu ríkisstjórnar, sem hins vegar hafi þjáðst af ákvarðanafælni.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að stofnuð verði eignaumsýslufélög sem eiga að taka yfir eignir stærstu fyrirtækjanna sem lenda í vandræðum innan bankakerfisins, til að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja sem teljast mikilvæg fyrir þjóðarhag. Þá samþykkti ríkisstjórnin starfsáætlun fyrir svo kallaða samræmingarnefnd sem í eiga sæti sænskur sérfræðingur í bankahruni, fulltrúar ráðuneyta, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans, sem hefur umsjón með helstu efnahagsaðgerðum. Sú áætlun verður kynnt nánar á morgun. Ríkisstjórnin samþykkti einnig að ráða erlenda ráðgjafa sem aðstoði ríkistjórnina í viðræðum erlendra kröfuhafa við skilanefndir gömlu bankanna, sem margir hverjir hafa sterka aðila á sínum snærum.

Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra munu leggja fram nauðsynleg lagafrumvörp vegna þessara aðgerða í vikunni. Forsætisráðherra boðaði einnig innan fárra daga aðgerðir vegna gjaldþrota heimila og greiðslujöfnun vegna myntkörfulána. Þá mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um séreignasparnað, sem heimilar eigendum hans að sækja um að taka út hluta hans frá væntanlegum gildistíma laganna hinn 1. mars næst komandi fram á haustið 2010. Heildarinneignir eru um 300 milljarðar og reiknar fjármálaráðherra með að allt að 80 til 90 milljarðar verði leystir út með þessum hætti fram til 2011.

Þetta fé yrði greitt út í áföngum að frádregnum tekjuskatti og jafnræðis gætt svo staða þeirra sem ekki taka sparnaðinn út skerðist ekki.

Margt hafi verið í undirbúningi hjá fyrri stjórn en aðgerðir látið á sér standa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×