Innlent

Brjáluð belja réðist á unglingsstúlku - sakfellt í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands dæmdi bónda skaðabótaskyldan gagnvart stúlku, þá fjórtán ára, sem lenti í því að kýr réðist á hana, stangaði í maga og trampaði á andliti hennar. Hlaut hún 5 prósent örorku af beljuárásinni.

Árásin átti sér stað í ágúst árið 2002. Þá var stúlkan að reka kúna en hún var nýbúin að bera kálfinn. Á leiðinni að bóndabænum réðist kýrin á stúlkuna með fyrrgreindum afleiðingum.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað bóndann þar sem talið var að um óhappatilvik væri að ræða.

Hæstiréttur komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að bóndanum hafi verið ljóst að kýr eru sérstaklega styggar eftir að þær eru nýbúnar að bera. Þá þótti einnig sannað að bóndinn hafi ekki frætt stúlkuna nægilega mikið áður en hún fylgdi kúnni.

Bóndanum var því gert að greiða stúlkunni tæpar tvær milljónir í skaðabætur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×