Svínaflensan er nú að stinga sér niður af auknum þunga á landsbyggðinni. Landlæknisembættið reynir að fá bóluefni til landsins fyrir helgi svo hægt sé að byrja bólusetningu forgangshópa í næstu viku.
Svínaflensan hefur verið á uppleið á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikur og nú er hún einnig að sækja í sig veðrið á landsbyggðinni, eins og spáð var.
Í allt hafa 10 til 20 manns verið lagðir á sjúkrahús, þrír voru á gjörgæslu í gær, að sögn Þórólfs Guðnasonar yfirlæknis á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins. Allir þessi sjúklingar hafa aðra undirliggjandi sjúkdóma.
Þórólfur segir að reynt verði að fá bóluefni til landsins svo skjótt sem kostur er, því mjög liggi á að hefja bólusetningu forgangshópa, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem flensan er útbreiddust. Í fyrstu verða heilbrigðisstarfsmenn bólusettir, sem og þeir sem eru í áhættuhópum. Þá eru barnshafandi konur, lögreglu-, slökkviliðs- og björgunarsveitarmenn einnig í forgagnshópi um bólusetningu.
Þórólfur segir engar vísbendingar um að flensan sé að breyta sér á nokkurn hátt, hún sé ekki útbreiddari eða verri en spáð hafði verið.
Ekki eru lengur tekin sýni úr fólki með inflúensulík einkenni, nema í undatekningartilfellum, þar sem gert er nánast ráð fyrir að þeir sem hafi slík einkenni séu með svínaflensu. Læknar hafa verið hvattir til að nota veirulyf í þeim tilfellum sem sjúklingar eru í áhættuhópi eða mjög veikir, en ekki er talin ástæða til að meðhöndla alla sem fá flensu.