Erlent

Konur, heilbrigðisstarfsmenn og börn verða í forgangi

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Ýmsir hafa gripið til þess ráðs að nota grímur til að skýla sér. Mynd/ AFP.
Ýmsir hafa gripið til þess ráðs að nota grímur til að skýla sér. Mynd/ AFP.
Barnshafandi konur, heilbrigðisstarfsmenn og börn eldri en sex mánaða verða í forgangi þegar bólusetning hefst gegn svínaflensunni í Bandaríkjunum í haust. Bandarísk stjórnvöld tilkynntu þetta í gær. Ekki er enn búið að skilgreina áhættuhópana hérlendis

Þetta er í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en í byrjun júlí gaf stofnunin út lista til hliðsjónar fyrir aðildarlöndin.

Áhættuhóparnir voru skilgreindir eftir að sérstök nefnd um sóttvarnir hélt fund í Atlanta. Þá tilkynntu stjórnvöld vestanhafs að meðal þeirra fyrstu sem ætti að bólusetja yrðu foreldrar og aðrir umönnunaraðilar ungbarna, fólk á miðjum aldri með undirliggjandi sjúkdóma og ungt fólk á aldrinum 19 - 24 ára.

Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að um 120 milljónir flensuskammtar berist í október. Ríflega 160 milljónir manna eru í þessum skilgreinda áhættuhópi og taldir líklegir til að fá mjög slæma flensu.

Þrátt fyrir að þeir sem eru í áhættuhópi séu töluvert fleiri en þeir skammtar sem munu berast hafa yfirmenn heilbrigðisviðs ekki miklar áhyggjur þar sem ekki er talið líklegt að allir sækist eftir bólusetningu.

Aðeins 15% þungaðra kvenna fara árlega í bólusetningu vestanhafs og hafa heilbrigðisyfirvöld þar eindregið hvatt þær allar til að fara í bólusetningu í ár vegna svínaflensunnar.

Öll lönd þurfa að skilgreina sérstaklega áhættuhópa þar sem gríðarleg eftirspurn er eftir bóluefninu en framboðið takmarkað. Hér á landi hefur ekki enn verið formlega tilkynnt um hverjir verði í forgangi þegar bóluefnið berst.

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir segir ekki liggja á því. Ýmislegt geti breyst en það muni þó liggja fyrir í haust þegar bóluefnið berst til landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×