Innlent

Tvö fölsk útköll í dag - tólf ára byssumaður og drukknandi leikarar

Í ljós kom að það var enginn að drukkna í tjörninni aðrir en leikarar.
Í ljós kom að það var enginn að drukkna í tjörninni aðrir en leikarar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur átt heldur sérkennilegan dag en hún hefur farið út í tvö fölsk útköll það sem af er degi. Annarsvegar var hringt í morgun og þeim sagt að einhver virtist vera að drukkna í Reykjavíkurtjörn.

Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að þarna voru kvikmyndagerðamenn að störfum og fólkið í tjörninni voru leikarar að þykjast drukkna. Lögreglan hafði ekki verið látin vita af upptökum kvikmyndagerðafólksins. Ekki er ljóst hvaða mynd þeir voru að vinna að.

Það var svo klukkan þrjú í dag sem öllu alvarlegra útkall barst til lögreglunnar. Þá var þeim tilkynnt að maður væri vopnaður byssu í Lágmúlanum nálægt Lyfju.

Allt tiltækt lögreglulið var kallað á vettvang auk sérsveitarmanna. Hluta götunnar var meðal annars lokað af lögreglumönnum. Sérsveitarmenn sáu tólf ára dreng með vopn og nálguðust hann og afvopnuðu.

Í ljós kom að um leikfangabyssu var að ræða. Hún líktist ekki raunverulegu vopni að sögn vaktstjóra lögreglunnar.

Spurður hvort foreldrar hafi haft samband vegna málsins sagði hann að það hefðu þau ekki gert - allavega ekki enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×