Erlent

Segist hafa verið valinn af Hitler til ævisagnaritunar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
David Irving.
David Irving. MYND/ David Hartley

Breskur sagnfræðingur, sem eyddi rúmu ári í fangelsi fyrir að neita því að helför gyðinga hafi átt sér stað, heldur því fram að Adolf Hitler hafi valið hann til að rita ævisögu sína.

David Irving er sjötugur að aldri og kallar ekki allt ömmu sína. Hann er einn hinna svokölluðu endurskoðunarsinna innan sagnfræðinnar en þeir leggja sig í framkróka við að efast um ýmislegt sem slegið hefur verið föstu og viðurkennt sem staðreyndir. Irving hélt því fram að engir gasklefar hefðu nokkru sinni verið til og fyrir það hlaut hann fangelsisdóm í Austurríki.

Hann segir í viðtali við breska blaðið Independent að Adolf Hitler hafi spáð svo, að Breti af komandi kynslóð myndi skrá ævisögu nasistaleiðtogans. Segir Irving þennan fróðleik kominn frá Erwin Giesing, lækninum sem annaðist Hitler eftir að tilræðismenn reyndu að sprengja hann í loft upp árið 1944.

Irving segist hafa hitt lækninn árið 1970 sem hafi afhent honum 400 blaðsíðna bók og sagt vera dagbók sína um samskiptin við foringjann. Þau gögn skyldi Irving nú nota til að vinna ævisöguna. Engum öðrum tækist að gera það að nokkru gagni án upplýsinganna í dagbókinni. Nú er bara að bíða og sjá hvort byltingarkennd ævisaga foringjans lítur dagsins ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×