Innlent

Samningar við Breta vegna hryðjuverkalaganna í góðum farvegi

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Eygló Harðardóttir ritari Framsóknarflokksins.
Utanríkisráðherra segir að samningar við Breta vegna hryðjuverkalaganna séu í góðum farvegi og vonandi þurfi Íslendingar ekki að taka á sig neinn skell vegna Icesave. Þingmaður Framsóknarflokksins segir utanríkisstefnu Samfylkingarinnar bara felast í því að mala.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði utanríkisráðherra að því á Alþingi í morgun út í stefnu stjórnvalda og aðgerðir í tengslum við Icesave og hryðjuverkalög Breta. Hún minntist á að utanríkisráðherra væri nýkominn heim af leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins. Hún spurði hvort utanríkisstefnan réðist af því hverjum utanríkisráðherra vildi vera með á ljósmynd.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, neitaði að láta mynda sig með Gordon Brown forsætisráðherra Breta á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í gær. Á bloggsíðu sinni lýsir Össur því þegar hann gekk í flasið á Brown þar sem hann var að láta mynda sig með Sarkozy Frakklandsforseta og Steve Harper, forsætisráðherra Kanadamanna

Eygló spurði hvort að það þetta væri leiðin sem Samfylkingin ætlaði að fara til að tryggja hag og öryggis Íslands gegn þjóð sem ráðist hafi með harkalegum hætti gegn hagsmunum þjóðarinnar.

„Ég veit ekki hvort það sé skoðun háttvirts þingsmanns að það helsta sem að samningamenn og ráðherrar íslensku ríkisstjórnnar eigi að stilla sér upp í einhverjar kurteisis myndatökur með einhverjum ráðherrum úti í heimi. Það er ekki leiðin til að niðurstöðu," sagði Össur.

Össur sagði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríksráðherra, hafa staðið mjög vel að málum og harkalegum mótmælum af Íslands hálfu verið komið á framfæri við Breta. Sjálfur hafi hann í þrígang komið mótmælum Íslendinga á framfæri við bresk stjórnvöld.

Þá sagði benti Össur á að þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafi ekki tekið upp málið í samtali við Gordon Brown.

Össur átti fund með Miliband í seinustu viku. Hann sagði að samningar við Breta vegna hryðjuverkalaganna væru í góðum farvegi og vonandi þurfi Íslendingar ekki að taka á sig neinn skell vegna Icesave-skuldbindinganna.

Eygló Harðardóttir var ekki sátt við þessi svör. Hún sagði ljóst að stjórnvöld ætli að halda áfram að mala og vona að Bretar verði voða góðir við okkur Íslendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×