Innlent

Fjármálaráðherra Hollands viss um að Icesave verði samþykkt

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, er sannfærður um að Alþingi Íslendinga samþykki ábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins við Hollendinga. Hollenska þingið ræðir áfram í dag skýrslu um Icesave-málið þar sem ábyrgðinni er skellt á Landsbankann og íslenska fjármálaeftirlitið.

Fram kemur í skýrslunni að hvorki Landsbankinn né Fjármálaeftirlitið hafi viljað viðurkenna hve mikil vandræði Landsbankinn hafi verið kominn í sumarið 2008. Auk þess hafi bæði bankinn og eftirlitið þverskallast við að grípa til nauðsynlegra ráðstafana á þeim tíma sem hefðu geta dregið úr því tjóni sem síðar varð.

Skýrslan gagnrýnir einnig Hollenska seðlabankan og Fjármálaeftirlitið í Hollandi þó skýrsluhöfundar segir að hendur stofnananna hafi verið verulega bundnar af regluverki Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki hafi verið hægt að stöðva Icesave í Hollandi á lagalegum grundvelli og auk þess hefðu afskipti geta valdið áhlaupi á Landsbankann um allan heim. Þó hefðu Seðlabankinn hollenski og fjármálaeftirlitið í Hollandi átt að grípa til einhverra aðgerða en takmarkað og misvísandi upplýsingaflæði frá fjármálaeftirlitinu á Íslandi hafi hindrað frekari aðgerðir.

Lagt er til að evrópuregluverkinu verði breytt til að koma í veg fyrir að svipað gerist í framtíðinni.

Skýrslan var rædd í neðri deild hollenska þingsins í gær og verður þeirri umræðu haldið áfram í dag.

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, var gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi í málinu en hann tók undir með skýrsluhöfundum og skellti skuldinni á íslenska fjármálaeftirlitið. Hollenskir fjölmiðlar munu hafa haft eftir Bos í gærkvöldi eftir fundinn að hann væri sannfærður um að Alþingi Íslendinga myndi samþykkja ábyrgð vegna Icesave samkomulagsins við Hollendinga. Undir það tók formaður samninganefndar Hollendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×