Innlent

Útilokar ekki uppsagnir

Lúðvík geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, á borgarafundinum í Hafnarfirði á laugardaginn.
Lúðvík geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, á borgarafundinum í Hafnarfirði á laugardaginn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, útilokar ekki að starfsfólki heilbrigðisstofnanna verði sagt upp störfum í tengslum við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á heilbrigðiskerfinu. ,,Ég get ekkert fullyrt um það yfir línuna," sagði Guðlaugur aðspurður í Kastljósi í kvöld hvort hann gæti fullyrt að engum verði sagt upp vegna aðgerðanna. Hann sagði að kerfið væri í stöðugri þróun.

Mótmælin dynja á ráðherranum hvaðanæva að vegna sparnaðaraðgerða sem kynntar voru í seinustu viku. Á laugardaginn var hann til að mynda púaður niður á tvöþúsund manna fundi í Hafnarfirði um framtíð Sankti Jósefsspítala sem verður lagður niður í núverandi mynd.

Markmiðið er að vernda heilbrigðisþjónustuna

Guðlaugur sagði að tekjufall ríkissjóðs væri afar mikið og við því þyrfti að bregðast. Það sé meðal annars gert með því að sameina heilbrigðisstofnanir og um leið efla þjónustuna.

Flatur niðurskurður hefði komið niður á heilbrigðiskerfinu að mati Guðlaugs og af þeim sökum var hann ekki fýsilegur kostur. Markmiðið sé að vernda þjónustuna.

Hugnast ekki einkavæðing

Árni Sigfússon, bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, hefur sagt að mikilvægt sé að bæjarfélagið taki við allri heilbrigðisþjónustu í bænum svo íbúar missi ekki nauðsynlega þjónustu. Rætt hefur verið um að Róbert Wessman komi að nýtingu skurðstofa sjúkrahússins í Reykjanesbæ.

Guðlaugur sagðist ekki vera búinn að færa neinar sjúkrastofnanir til sveitarfélaga, Reykjanesbæjar í þessu tilfelli. ,,Ég ætla ekki að tjá mig um einstaklinga," sagði ráðherran aðspurður um hlut Róberts í málinu.

Guðlaugur sagði að þriðjungur heilbrigðiskerfisins væri nú þegar einkarekinn. Hann sagði að sér hugnaðist ekki einkavæðing í heilbrigðiskerfinu en einkarekstur væri annað. Að hans mati er grundvallaratriði að fólki sé ekki mismunað eftir efnahag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×