Innlent

Ökufantur: „Ég treysti bara ekki lögreglunni"

Lögreglumenn brutu allar rúður bílsins og drógu bílstjórann út.
Lögreglumenn brutu allar rúður bílsins og drógu bílstjórann út.

„Ég var á þunglyndislyfjum en ég má aka hvaða bifreið sem er á þeim," segir tuttugu og fimm ára gamall maður sem var handtekinn í gær eftir mikla eftirför lögreglu sem spannaði allt frá Bústaðavegi langt inn í Grafavog. Maðurinn var handtekinn í kjölfarið og hefur nú verið kærður fyrir margvísisleg umferðalagabrot auk þess að stofna almenningi í hættu. Sjálfur segist hann hafa ekið á brott eftir að lögreglan skipaði honum að fara yfir í lögreglubifreið, án þess að tiltaka hvers vegna.

„Ég treysti bara ekki lögreglunni," segir hann en þvertekur fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Hann játar að hann hafi áður neytt fíkniefna, það geri hann ekki í dag. Hann hafi farið í meðferð og stundi nú nám. Sjálfur reynir hann að byggja upp líf sitt en atvikið í gærkvöldi hafi komið sem reiðarslag.

Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki hlýtt lögreglu þegar hún skipaði honum að færa sig yfir í lögreglubifreiðina svarar hann því til að hún hafi neitað að útskýra fyrir honum af hverju hann hafi verið stöðvaður.

„Ég viðurkenni það að ég verð þurr í munninum og stressaður og svona, og þá kannski halda þeir að eitthvað hafi verið í gangi," segir hann spurður hvort lögreglan hafi haft einhverja ástæðu til þess að stöðva hann. Hann segist hafa spurt ítrekað hvers vegna þeir vildu að hann færi með þeim og sagðist engin svör hafa fengið.

Í kjölfarið hafi hann tekið þá undarlegu ákvörðun að keyra í burtu.

„Ég sagðist bara ekki nenna þessu," segir hann en samskipti hans við lögregluna stóðu yfir í allt að fimm mínútur að hans sögn. Þegar hann fór af stað hóf lögreglan eftirförina með fyrrgreindum afleiðingum.

„Þeir mölvuðu rúðuna og ég fékk glerbrot í andlitið," segir hann um endalok eftirfararinnar. Þá brutu lögreglumenn allar rúður í bílnum og drógu hann svo út um gluggann bílstjóramegin. Sjálfur rispaðist hann í andlitið þegar glerbrotin splundruðust inn í bílinn.

Aðspurður hvað hann hugðist gera þegar hann ók á brott, með allt að tíu lögreglubifreiðar á eftir sér, svarar hann: „Ég veit það ekki. Ég ætlaði bara að komast heim, ég var ekki búinn að hugsa svo langt."

Sjálfur telur hann framferði lögreglunnar hafa verið hættulegt, að veita honum eftirförina með þessum hætti það er að segja. Nú er bíllinn hans ónýtur en hana notaði hann til þess að komast í skóla.

Sjálfur þurfti hann að gista fangageymslur lögreglunnar síðastliðna nótt. Hann segist hafa beðið lögregluna um að láta foreldra sína vita hvar hann væri niður kominn, það hafi hún hinsvegar ekki gert. Það þyki honum slæleg vinnubrögð og er móðir hans sár vegna þessa.

Spurður hvort hann finni ekki til neinnar ábyrgðar vegna málsins, segist hann gera það. Það að hafa ekið af stað var vanhugsað að hans mati og hefur kostað hann bílinn auk þess sem hann var í lífshættu á meðan eftirförinni stóð.

„Af hverju gátu þeir ekki bara romsað út úr sér afhverju þeir vildu mig í bílinn," segir hann að lokum þegar hann hugsar til upphafsins að endinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×