Innlent

Ekki til skynsamleg rök fyrir sameiningu

Á móti Jón Bjarnason, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, er andvígur stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Í ráði var að leggja fram frumvarp um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins á haustþingi. Af því hefur ekki orðið.
Á móti Jón Bjarnason, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, er andvígur stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Í ráði var að leggja fram frumvarp um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins á haustþingi. Af því hefur ekki orðið.

„Nú er mikilvægt að standa vörð um landbúnað og sjávarútveg og þess vegna er mjög óskynsamlegt að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu á dögunum leggst Jón gegn áformaðri sameiningu ráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í atvinnuvegaráðuneyti. Í kjölfar fréttarinnar hafa ýmis samtök í landbúnaði og sjávarútvegi, auk sveitarfélaga, ályktað á sama veg.

Jón segir mikilvægt að standa vörð um sterka stöðu og ímynd landbúnaðar og sjávarútvegs og telur hættu á að hvort tveggja verði undir við sameiningu. Þess utan hafi stjórnsýslan í nægu að snúast án þess að þetta bætist við.

„Það er við næg önnur verkefni að fást af hálfu stjórnsýslunnar heldur en að setja þessa mikilvægu málaflokka á flot. Þar á meðal eru aðildarviðræðurnar vegna ESB sem taka til sín tug starfsmanna ráðuneytisins. Að mínu mati er þvert á móti mikilvægara að styrkja enn frekar grunnstoðir landbúnaðar og sjávarútvegs í stjórnsýslunni svo greinarnar geti tekist á við stór og aukin viðfangsefni í breyttu umhverfi.“

Tvö ár eru frá sameiningu landbúnaðarráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins. Jón var ekki við þingumræðurnar um málið á sínum tíma en flokkur hans, VG, lagðist gegn sameiningunni.

„Ég tel að sú sameining hafi verið unnin kolvitlaust. Hún var unnin ofan frá án þess að málin væru skilgreind frá grunni. Og ég held að það hafi skaðað landbúnaðinn að landbúnaðarskólarnir, og þar með mikilvægt rannsóknarstarf, voru færðir frá ráðuneytinu.“

Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir sameiningu ráðuneytanna, að mati Jóns, auk þess sem enginn hafi í raun óskað eftir henni. „Það hefur ekki verið sýnt fram á neitt í þessum efnum og það er beinlínis heimskulegt að ætla að berja í gegn svona ákvörðun ofan frá og láta hana krafsa sig í gegnum kerfið. Það gerir enginn í almennilegri stjórnsýslu,“ segir hann og vitnar til nýlegrar könnunar sem sýnir að sameiningar í stjórnsýslunni hafi jafnan leitt til aukinna útgjalda en ekki sparnaðar og hagræðingar, auk þess að vera illa undirbúnar og í flesta staði misheppnaðar.

„Allar okkar aðgerðir eiga að miða að því að styrkja landbúnað og sjávarútveg. Ef það á að veikja þessar greinar innan stjórnsýslunnar þá þurfa að vera fyrir því skynsamleg rök og þau eru ekki til.“

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×