Innlent

Stefnir á Íslandsmet í Esjugöngu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Esjan gnæfir tignarleg yfir höfuðborgina.
Esjan gnæfir tignarleg yfir höfuðborgina. Mynd/GVA
Þorsteinn Jakobsson, velunnari samtakanna Ljóssins, stefnir að því að ganga sjö ferðir upp og niður Esjuna á morgun. Hann safnar áheitum til göngunnar, sem renna óskipt til Ljóssins. Þess má geta að Esjudagur Ferðafélags Íslands og VISA er jafnframt á morgun.

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein eða blóðsjúkdóma og aðstandendur þeirra.

Þorsteinn kemur til með að hefja fyrstu Esjugönguna klukkan hálf fimm í fyrramálið og telur að ferðirnar sjö taki um fimmtán tíma. Hann segist reiðubúinn í afrekið bæði andlega og líkamlega.

„Ég er vanur því að fara mikið upp á Esju og jafnvel fleiri en eitt fjall á dag," segir Þorsteinn.

Hann segir verst hvað veðrið ætli að vera gott á morgun, en of mikið sólskin getur reynst fjötur um fót við mikla líkamlega áreynslu.

Takist Þorsteini ætlunarverkið er hann líklegast Íslandsmethafi í Esjugöngu, en 27 ára gamall Reykvíkingur gekk sex ferðir upp og niður Esjuna fyrir skemmstu til styrktar Krabbameinssjúkum börnum.

Þeim, sem vilja heita á Þorstein og styrkja Ljósið, er bent á reikning 0130-26-410520, kt. 590406-0740. Sjá heimasíðu samtakanna.

„Þetta er frábært málefni, og þessi samtök vantar aura," segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×