Erlent

Bandarískir svínabændur óhressir með svínaflensu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Blessaðir málleysingjarnir hafa ekkert um málið að segja.
Blessaðir málleysingjarnir hafa ekkert um málið að segja.

Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna, hefur bænheyrt þarlenda svínabændur og farið þess á leit við stjórnvöld að nafni svínaflensunnar alræmdu verði breytt í H1N1-veiran í stað þess að kenna hana við svín.

Að auki hafa Ísraelsmenn krafist þess að svínaflensan verði kölluð Mexíkóflensan þar sem gyðingdómur fordæmir svínakjötsát hvað svo sem mexíkóskum bændum og landslýð finnst um það. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin í París tekur reyndar undir þessi sjónarmið og bendir á að ekkert svín hafi sýkst af veirunni fram að þessu heldur reki hún uppruna sinn til manna og fugla.

Svínabændur í Bandaríkjunum eru heldur ekki hressir með nafnið sem skiljanlega eykur ekki beint söluna á þeirra afurðum og hefur auk þess gert það að verkum að mörg ríki íhugi nú að banna innflutning á bandarísku svínakjöti sem sé blásaklaust.

Sala svínaafurða í Bandaríkjunum hefur minnkað svo mikið síðustu tvo daga að elstu menn muna ekki annað eins og svínabændur skella skuldinni á hugtakið svínaflensa sem nú fer sem eldur í sinu um heimsbyggðina. Er það furða?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×