Innlent

Hóta að kvarta undan Háskólanum til umboðsmanns Alþingis

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Arnþór Gíslason, formaður fjármálanefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Arnþór Gíslason, formaður fjármálanefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Við höfum fengið mjög mikið af kvörtunum út af þessu máli," segir Arnþór Gíslason, formaður fjármálanefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Nefndin telur að skólinn brjóti lög með sérstakri álagningu á skráningargjöld skólans.

Skráningargjöldin eru að upphæð 45 þúsund krónur og voru á gjalddaga tíunda júlí síðastliðinn. Háskólinn lagði fimmtán prósenta álagningu, um 6.750 krónur, á þá upphæð að gjalddaga liðnum, þrátt fyrir að eindagi sé ekki fyrr en í ágúst.

Í bréfi sem fjármálanefnd Stúdentaráðs afhenti fjármálastjóra háskólans og skrifstofustjóra nemendaskrár í dag kemur fram að alla jafna sé óheimilt að leggja vanefndarálag á reikninga fyrir eindaga þeirra.

Nefndin telur ekki að heimild sé fyrir álagningunni í lögum um opinbera háskóla og skorar á Háskólann að endurskoða hana.

Í bréfinu hótar fjármálanefndin jafnframt að fara með málið fyrir umboðsmann Alþingis ef Háskólinn hverfi ekki frá þessari ráðstöfun. Arnþór segir að farið verði fram á að skólinn endurgreiði þeim sem þegar hafi greitt álagninguna.

„Ég verð að segja, sérstaklega í þessu árferði, að það kemur mjög á óvart að Háskólinn skuli nýta sér svona mikla hörku í innheimtu," segir Arnþór að lokum, sem segist ekki þekkja þá viðskiptavenju á Íslandi að vanefndaálag sé lagt á fyrir eindaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×