Innlent

Vilja samning við Magma upp á borðið

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. MYND/Pjetur

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir að minnihlutinn í borgarstjórn muni á fundi síðar í dag krefjast þess að samningur Orkuveitunnar um sölu á hlut veitunnar í HS Orku til Magma Energy verði gerður opinber nú þegar.

„Það ótrúlega ákvæði er í samningi um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja að aðeins stjórnarmenn, embættismenn og borgarfulltrúar eigi að fá aðgang að samningnum og efnisatriðum hans," segir Dagur.

Hann segir þetta beinlínis skrifaði inn í samninginn sjálfan og að trúnaðarklausa hans eigi ekki aðeins við um innihaldið heldur sé einnig talað um að aðilar séu sammála um að gera sitt besta „til að halda tilveru og innihaldi þessa samnings í ströngum trúnaði."

„Meirihlutinn felldi tillögu Samfylkingar og VG í stjórn Orkuveitunnar um að þessu fráleita og hugsanlega fordæmalausa ákvæði til hliðar á fundi stjórnarinnar í gær," segir Dagur og bætir við að í kjölfarið hafi fulltrúar minnihlutans áskilið sér allan rétt í málflutningi sínum enda varði málið brýna almaannahagsmuni og meðferð opinbers fjár.

„Ruglið sem feluleikur meirihlutans er kominn út í sést vel á því að ef ákvæðinu ætti að fylgja í hvívetna myndu svör borgarstjóra um samninginn líklega þurfa að vera svohljóðandi: Hvaða samnings?," bendir Dagur á og bætir því við að Orkuveita Reykjavíkur sé í almannaeigu og því hafi almenningur skýlausa kröfu á að fá upplýsingar um „tilveru og innihald" samningsins, en ekki aðeins „fáeinir útvaldir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×