Innlent

Á sjúkrahúsi eftir ofsaaksturinn í gær

Karlmaður á þrítugsaldri, sem reyndi í gær að komast undan lögreglunni með ofsaakstri á stolnum bíl og endaði úti í skurði við norðanverðan Hvalfjörð, er enn á sjúkrahúsi vegna meiðsla sem hann hlaut í byltunni. Hann er þó ekki alvarlega meiddur og verður útskrifaður í dag.

Bílnum stal hann á bensínstöð þegar eigandinn var að greiða fyrir bensín. Nokkru síðar varð lögregla hans vör og hófst æsileg eftirför á nokkrum lögreglubílum og mótorhjólum og komst bílþjófurinn út á Vesturlandsveg, þar sem hann mældist á allt að 160 kílómetra hraða. Lögreglan á Akranesi setti upp vegatálma við Hvalfjarðargöng, en þá beygði maðurinn inn í Hvalfjörðinn og var á leið út fjörðinn norðan megin þegar lögreglumönnum tókst að þvinga hann út af veginum með að aka utan í bílinn. Eftirförin hafði þá staðið í 45 mínútur.

Maðurinn var handtekin á staðnum og fluttur í sjúkrabíl á Slysadeild. Hann á afbrotaferil að baki.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×