Erlent

Gaza ströndin í rúst

Óli Tynes skrifar

Ísraelar boðuðu einhliða vopnahlé á miðnætti. Hamas samtökin segja að þau muni hætta öllum hernaðaraðgerðum og gefa ísraelum vikufrest til þess að flytja hermenn sína frá ströndinni.

Þetta hefur leitt til þess að fréttamenn hafa loks komist á vígvöllinn. Það er raunar ekki hefðbundinn vígvöllur því Gaza ströndin er eitt þéttbýlasta svæði í heimi. Þar býr ein og hálf milljón manna á um 360 ferkílómetra svæði.

Við fréttamönnunum blasir hvarvetna við viðurstyggð eyðileggingarinnar. Og dauði.

Í einu þorpi á ströndinni sem ísraelskir hermenn hafa nú yfirgefið fóru sjúkrabílar og tíndu upp lík af fjörutíu palestínumönnum. Flest voru það vígamenn Hamas sem höfðu fallið í bardögum við ísraelska hermenn.

Spurningin hlýtur að vera hvort Ísraelar hafi haft árangur sem erfiði. Yfirlýstur tilgangur þeirra var að stöðva eldflaugaárásir Hamas sem hafa skotið yfir 8000 eldflaugum og vörpusprengjum á Ísrael síðan árið 2001.

Ísraelar hafa að vísu þegar lýst yfir sigri. En Hamas sitja enn við stjórnvölinn á Gaza. Og Ísraelar vita ekkert hvað þeir eiga margar eldflaugar eftir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×