Innlent

Verulegur samdráttur hjá leigubílstjórum

Leigubílstjórar finna fyrir verulegum samdrætti í kreppunni og hefur ferðum fækkað um allt að fjórðung milli ára. Kristinn Snæland hefur verið leigubílsstjóri í 24 ár. Á þessum tíma segist hann hafa fundið fyrir breytingum en alls ekki samdrætti fyrr en núna. Nú sé virkilegur samdráttur. Sömu sögu er að segja af Úlfari Markússyni. Hann hefur keyrt leigubíl í rúmlega 50 ár. Tólf klukkustunda vakt á dögunum skilaði honum aðeins um 750 krónum í tímakaup. Hann segir að svoleiðis sé þetta dag eftir dag. Sífellt færri panti leigubíl.

Afgreiddar ferðir frá símaafgreiðslu drógust saman um 20 til 25 prósent fyrstu mánuðina eftir bankahrun. Framkvæmdastjóri Hreyfils Bæjarleiða segir leigubílstjóra finna verulega fyrir samdrættinum. Kostnaðurinn á leigubílum sé orðinn það mikill að menn verði að bæta við sig lengri vinnudegi til að ná endum saman. Hann býst við því að ástandið geti verið erfitt næstu tvo þrjá mánuði, en hann vonist til þess að vorið gefi leigubílstjórum meiri ferðamannavinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×