Innlent

Framsókn toppaði of snemma

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, telur að Framsóknarflokkurinn hafi toppað of snemma þegar flokkurinn var á miklu flugi í skoðanakönnum í kjölfar landsfundar í janúar. Frá þeim tíma hafi margt breyst og ný ríkisstjórn verið mynduð fyrir tilstilli flokksins.

Fylgi Framsóknarflokksins er nú 7,5% og hefur ekki mælst minna á árinu í skoðanakönnunum Fréttablaðsins. Það er tæpum 5% minna en flokkurinn mældist með fyrir hálfum mánuði. Flokkurinn hlaut sjö þingmenn kjörna í kosningunum 2007 en samkvæmt könnuninni fengi flokkurinn fimm þingmenn. Skömmu eftir landsfund flokksins í janúar mældist stuðningur við flokkinn á bilinu 15 til 17%.

Breytingar mældust vel fyrir í janúar

Stefanía segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi verið kjörinn formaður flokksins nokkuð óvænt þar sem um ungan og óreyndan stjórnmálamann hafi verið að ræða.

„Í janúar þótti það mikill kostur en þá var mikil óánægja með ríkisstjórnina og fólk kallaði eftir breytingum," segir Stefanía og bætir við að á sama tíma hafi Barack Obama verið að taka við sem forseti Bandaríkjanna. Í þessu andrúmslofti hafi breytingar á forystu Framsóknarflokksins mælst vel fyrir.



Mikið vatn runnið til sjávar


Frá því í janúar hefur ný ríkisstjórn verið mynduð, boðað hefur verið til kosninga og ljóst að breytingingar verði á forystu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á landsfundum flokkanna um helgina. Stefanía segir að það sé klúðurslegt að gagnrýna ríkisstjórnina á sama tíma og Framsóknarflokkurinn styðja hana og formaðurinn tali um að mynda meirihlutastjórn með vinstriflokkunum eftir kosningar.

Stefanía bendir jafnframt á að tillögur flokksins um niðurfellingu 20% einstaklinga hafi verið harðlega gagnrýndar. „Jafnframt hefur Morgunblaðið verið að rifja upp einkavæðingu bankanna og það virðist vera erfitt fyrir Framsóknarflokkinn að hylja spor fortíðarinnar."




Tengdar fréttir

Ríkisstjórnarflokkarnir fengju traustan meirihluta

Ríkisstjórnarflokkarnir tveir fengju traustan meirihluta á þingi, ef kosið yrði nú, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö, en fylgið hrynur af Framsóknarflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×