Innlent

Þyrla kölluð út eftir að neyðarblys sást á lofti

TF-GNÁ
TF-GNÁ Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á ellefta tímanum í gærkvöldi tilkynning í gegn um Neyðarlínuna um að neyðarblys hefði sést á lofti norður frá Eiðistorgi. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ var við næturæfingar við Straumsvík með björgunarskipinu Einari Sigurjónssyni og fór samstundis til leitar. Flaug þyrlan norður frá Eiðistorgi, að Akranesi og tilbaka.

Skömmu síðar var leitarsvæðið fært þar sem tilkynning barst um aðra staðsetningu, vest-norð-vestur af svæðinu. Beiðnin var afturkölluð rétt fyrir klukkan ellefu þar sem Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafði haldbærar sannanir fyrir því að þetta hefði verið flugeldur frá landi. Fór þyrlan þá aftur að Björgunarskipinu Einari Sigurjónsyni og var næturæfingin kláruð.       

Þetta er þriðja tilfellið á tveimur mánuðum sem þyrla Landhelgisgæslunnar er kölluð út til leitar vegna neyðarblysa sem sjást á lofti og hefur leit ekki borið árangur. Í febrúar leitaði þyrla klukkustundum saman á Breiðafirði án árangurs og í mars mánuði var leitað á Kollafirði einnig án árangurs.

    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×