Innlent

Stunduðu undirboð á sementi

Sementsverksmiðjan. Fullyrt er að innflytjandi hafi stundað undirboð frá 2000. fréttablaðið/H.KR.
Sementsverksmiðjan. Fullyrt er að innflytjandi hafi stundað undirboð frá 2000. fréttablaðið/H.KR.

 Framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hefur sent Viðskiptaráði, samtökum í atvinnulífinu og alþingismönnum bréf þar sem hann sakar keppinaut sinn, Aalborg Portland á Íslandi, um að hafa stundað undirboð á byggingamarkaði allt frá árinu 2000.

Í bréfi sínu segir Gunnar H. Sigurðsson að Sementsverksmiðjan geri enga athugasemd við þátttöku Aalborg Portland á íslenskum samkeppnismarkaði „svo fremi sem fyrirtækið virði heiðarlega viðskiptahætti“. Svo sé hins vegar ekki raunin.

Í tölum sem Gunnar birtir máli sínu til stuðnings kemur fram að sementsverð til Íslands var aðeins um helmingur verðsins í Danmörku og hefur lækkað um níu prósent frá árinu 2000.

„Á sama tímabili hækkaði sementsverð Aalborg Portland um 33 prósent sem er í samræmi við almenna verðlagsþróun á mörkuðum ytra og vegna umframeftirspurnar á sementi“, segir í bréfinu. „Ekki verður annað séð en að Aalborg Portland hafi stundað stöðug undirboð allt frá þeim tíma er fyrirtækið kom á ný inn á markaðinn á Íslandi. Það eru vinnubrögð sem Sementsverksmiðjan á erfitt með að sætta sig við og áskilur sér rétt til að skoða frekar,“ segir Gunnar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×