Innlent

Vilhjálmur: Stöðugleikasáttmálinn hangir á bláþræði

Það var nokkuð stíft fundað í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Mynd/ Egill.
Það var nokkuð stíft fundað í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Mynd/ Egill.
Lítið þokaðist í samningaviðræðum ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmálann í dag. Upplausn blasir við á vinnumarkaði náist ekki samkomulag á næstu tveimur sólarhringum.

Ráðherrar funduðu með aðilum vinnumarkaðarins á föstudag og áfram var fundað í dag. Náist ekki samkomulag fyrir þriðjudag getur komið til þess að samningum á almennum vinnumarkaði verði sagt upp.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að töluvert langt sé í land að hægt sé að halda áfram með samninga. Hann segir að stöðugleikasáttmálinn hangi á bláþræði en ekki sé búið að klára málið.

„Meginviðfangsefni okkar í þessu er að verja okkar kjarasamning. Við töldum þennan stöðugleikasáttmála verða mikilvægt innlegg til að ná tökum á okkar efnhagsmálum almennt en það er líka alveg ljóst að við erum í talsverðum ágreiningi við þessa ríkisstjórn af því sem snýr að efnhagsmálum og skattamálum," segir Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segia að vilji sé til þess að halda áfram. „Margir lýstu einmitt mikilli ánægju með það að þetta hefði gengið vel, opinberu samtökin og sveitarfélögin. Hins vegar eru SA og ASÍ með ákveðna dagsetningu framundan sem að við erum líka að skoða . Nú vinnum við úr þeim umræðum og það skýrist í kvöld eða á morgun hvernig staðan er," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×