Innlent

Hafa áhyggjur af börnunum

„Við foreldrar viljum ekki missa það frábæra starfsfólk sem við höfum í leikskólunum, en að óbreyttu mun álagið þar aukast til muna,“ segir Edda Björk. Fréttablaðið/anton
„Við foreldrar viljum ekki missa það frábæra starfsfólk sem við höfum í leikskólunum, en að óbreyttu mun álagið þar aukast til muna,“ segir Edda Björk. Fréttablaðið/anton
Foreldrar í Reykjavík hafa verulegar áhyggjur af fyrirhuguðum niðurskurði upp á 580 milljónir hjá leikskólum borgarinnar, að sögn Eddu Bjarkar Þórðardóttur sem situr í foreldraráði leikskólans Hamra.

Foreldrafélög og -ráð í borginni ætli að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði í leikskólum borgarinnar og vilja að skorið verði niður annars staðar.

„Þetta hefur þau áhrif að þjónustan skerðist til muna, til dæmis á að skerða afleysingar vegna veikinda kennara um fjórðung, en afleysingin er nú þegar of lítil,“ segir Edda Björk.

Búið sé að skera svo mikið niður í leikskólunum á árinu að frekari sparnaður komi við grunnþjónustuna. En eitt dæmi um metnaðarleysi hjá borginni sé að tala sífellt um að standa vörð um grunnþjónustu, þegar enginn viti hvað það þýðir.

„Við spurðum að því hvað þetta væri, grunnþjónusta við börnin okkar. En Reykjavíkurborg hefur alls ekki skilgreint hana,“ segir Edda Björk.

Að auki hafi verið skortur á samráði borgar og foreldra, því þótt foreldraráði í hverjum leikskóla beri skylda til að koma upplýsingum um fyrirhugaðar aðgerðir til foreldranna hafi borgin sama sem ekkert upplýst ráðin um ætlanir sínar. - kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×