Erlent

Saga síðasta geldings Kína komin út á ensku

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sun Yaoting, til hægri, með höfundi bókarinnar, sagnfræðingnum Jia Yinghua.
Sun Yaoting, til hægri, með höfundi bókarinnar, sagnfræðingnum Jia Yinghua. MYND/Reuters

Sun Yaoting átti það til að fella tár þegar hann rifjaði upp æsku sína og uppvaxtarár með sagnfræðingnum Jia Yinghua sem skrásett hefur sögu hans og gefið út undir heitinu „Síðasti geldingurinn í Kína".

Sun er reyndar löngu látinn, hann lést árið 1996, en bókin var loksins að koma út á ensku núna og þykir fengur fyrir sagnfræðinga sem hafa áhuga á að kynna sér sögu geldinganna en þeir urðu eins konar stétt í Kína sem upphaflega varð til á Ming-tímabilinu.

Þá stunduðu keisarar það að láta gelda unga pilta til að tryggja sér ævarandi hollustu þeirra og tryggð auk þess sem geldingarnir voru látnir hafa umsjón með kvennabúrum keisaranna. Sun sagði meðal annars frá þjónustu sinni við keisarann Pu Yi og búsetu í Forboðnu borginni svokölluðu en þangað inn máttu engir aðrir en keisarafjölskyldan og geldingar stíga fæti.

Ævisaga Sun Yaoting hefur varpað ljósi á ýmsa þætti sem áður var lítið vitað um í tengslum við geldinga, þjónustu þeirra og hollustu við keisarann og þjóðfélagslega stöðu þeirra í Kína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×